Þrettánda umferð 1. deildar karla fór fram í vikunni. Tveimur leikjum er ólokið en þeir verða spilaðir um miðjan mars en það eru leikir Þórs og KFR Lærlinga sem fram fer 15. mars á Akureyri og leikur ÍA og KR c sem verður spilaður 16. mars á Akranesi.
KFR Stormsveitin – ÍR KLS Egilshöll 25. febrúar. 6 – 14 2240 – 2416
KLS mættu ákveðnir til leiks og ætluðu greinilega ekki að tapa stigum í toppbaráttunni. Fyrstu tvo leikina tóku þeir nokkuð örugglega 1 – 5 og spiluðu yfir 830 í báðum leikjum. Í öðrum leik var mikil spenna vegna mögulegs 300 leiks hjá Arnari Sæbergs. Hann var kominn með níu í röð en opnaði svo tíunda ramma og endaði í 267.
Í þriðja leik snérist dæmið við og Stormsveitin var sterkari. Sá leikur endaði 4 – 2 og þá var það Stormsveitin sem fór í 817.
Hæstur hjá Stormsveitinni var Valgeir Guðbjarts með 637 en hjá KLS Einar Sig með 663 og Arnar Sæbergs með 638
ÍR PLS – KR A Egilshöll 25. febrúar. 16 – 4 2428 – 2220
Þessi leikur fór nokkuð rólega af stað. Bæði lið ekkert að spila sérstaklega en PLS vann þó leikinn 5 – 1 og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. PLS vann annan leikinn líka 5 – 1 og síðasta leikinn 4 – 2.
Það má segja að þar hafi þeir tapað einu stigi of mikið því eftir leikinn sitja þeir í öðru sæti, einu stigi á eftir ÍA W en með betra meðaltal.
Hæstur hjá PLS var Hafþór með 676 og Bjarni Páll með 618. Hjá KR A var Davíð Löve með 601.
ÍA W – KR B Akranesi 26. febrúar. 12 – 8 2321 – 2228
Á Skaganum áttust við topplið ÍA W og KR B sem eru að keppast um að komast í úrslitakeppnina. Leikurinn var í beinni á netinu og var hin besta skemmtun, jafn en samt kaflaskiptur.
Í fyrsta leik spiluðu bæði lið vel, yfir 800. Þann leik vann KR B með fjórum pinnum og úrslit urðu 2 – 4. Annar leikurinn var ekki vel spilaður, hvorugt liðið fór yfir 700 og heildina unnu KR B á einum pinna. Úrslit leiksins urðu 3 – 3. Þá tóku Skagamenn við sér, spiluðu 833 í síðasta leik á móti 735 hjá KR B og unnu leikinn 5 – 1 og viðureignina 12 – 8.
Skúli Freyr í ÍA W spilað frábærlega og var nálægt því að taka hæstu seríu í deildinni af Herði Einars í KR C. Skúli spilaði 716 en sería Harðar er 717. Hæstur hjá KR B var Bragi Már en hann spilaði 243.