Þing Evrópska keilusambandsins European Tenpin Bowling Federation var haldið í Bratislava í Slóvakíu 20. október s.l. Á þinginu var Addie Ophelders endurkjörinn formaður sambandsins og Valgeir Guðbjartsson og Onder Gurkan voru endurkjörnir stjórnarmenn til næstu 4 ára. Stjórn ETBF er því þannig skipuð: Addie Ophelders Hollandi formaður, Kim Thorsgaard Jensen Danmörku varaformaður, Valgeir Guðbjartssson Íslandi ritari, Roni Ashkenzai Búlgaríu meðstjórnandi, Sergey Lisitsyn Rússlandi meðstjórnandi og Onder Gurkan meðstjórnandi.
Formaður Evrópusambandsins Addie Ophelders afhenti við það tækifæri þremur aðilum silfurmerki FIQ keilusambandsins sem tilkynnt voru á þingi FIQ sem haldið var í Henderson í USA. Þetta voru þeir Valgeir Guðbjartsson Íslandi stjórnarmaður og ritari ETBF, Onder Gurkan frá Tyrklandi stjórnarmaður og formaður fræðslunefndar ETBF og Sergey Lisitsyn Rússlandi stjórnarmaður og nefndarmaður í mótanefnd ETBF. Á myndinni frá vinstri, Onder Gurkan, Addie Ophelders, Valgeir Guðbjartsson og Sergey Lisitsyn.
Á þinginu voru samþykktar nokkrar breytingar á reglugerðum sambandsins sem taka gildi 1. janúar 2014.
Meðal annars var samþykkt að það verði ekki lengur tveir mismunandi olíuburðir á setti í keilumótum (dual lane condition). Breytingarnar gilda fyrir Evrópumót kvenna, karla og Evrópubikar einstaklinga. Þessi breyting felur einnig í sér að einstaklingskeppni verður 6 keppnisgreinin á Evrópumóti kvenna og karla.
Til að mæta auknum kröfum um hraða og gæði úrslita og stöðu keppenda á mótum var samþykkt að færa ábyrgðina frá mótshöldurum yfir til ETBF sem mun semja við utanaðkomandi fyrirtæki og jafnframt var samþykkt að fjölga starfsmönnum ETBF á alþjóðlegum mótum og bæta við IT delegate.
Einnig var samþykkt að sömu reglur um búninga, reykingar og áfengisdrykkju nái einnig til þjálfara og skrá þarf þjálfara til þátttöku á mótum á sama hátt og keppendur.
Sjá nánar í frétt á heimasíðu ETBF og fylgist með á Facebook síðu sambandsins