Önnur viðureignin í úrslitum 1. deildar kvenna á Íslandsmóti liða á milli KFR-Valkyrja og ÍR-TT fór fram í Egilshöllinni í kvöld. ÍR-TT vann viðureignina með 13 stigum á móti 7 hjá KFR-Valkyrjum og staðan er því þannig að ÍR-TT er með 25 stig á móti 15 stigum KFR-Valkyrja. Þriðja og síðasta viðureignin um Íslandsmeistaratitilinn og seinni heimaleikur deildarmeistaranna KFR-Valkyrja, fer fram í Egilshöllinni annaðkvöld, þriðjudaginn 30. apríl og hefst kl. 19:00.
Lið ÍR-TT byrjaði einnig betur í kvöld og vann 5 -1 í fyrsta leiknum með 657 pinnum á móti 632. KFR-Valkyrjur náðu að svara fyrir sig í öðrum leiknum og unnu hann 4 – 2 með 661 pinnum á móti 651. Þriðji leikurinn var einnig jafn og fór 4 -2 þar sem ÍR-TT spilaði 736, en KFR-Valkyrjur 725 og samtals var ÍR-TT með 2.044 pinna og KFR-Valkyrjur með 2.018. Guðný Gunnarsdóttir ÍR-TT spilaði best allra í kvöld með 583 seríu, Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR-TT spilaði 561 og Dagný Edda Þórisdóttir KFR-Valkyrjum var með 560. Stöðuna í úrslitakeppninni er hægt að sjá hér
Úrslitakeppni 1. deildar karla og kvenna fer þannig fram að fjögur efstu liðin eftir deildarkeppnina komast í úrslitakeppni þar sem spilað er samkvæmt útsláttarfyrirkomulagi, það er að liðið sem er í efsta sæti deildarinnar keppir við liðið í 4. sæti og liðið í 2. sæti keppir við liðið í 3. sæti. Leiknar skulu tvær viðureignir, heima og heiman, og fær hærra liðið heimaleik fyrst. Ráðast úrslit af stigum liðanna eftir þessar 2 viðureignir, ef lið eru jöfn skal pinnafall ráða. Sigurvegarar úr þessum tveim viðureignum skulu leika þrjár viðureignir heima og heiman. Liðið sem varð hærra í deildarkeppninni skal eiga heimaleik fyrst og svo til skiptis. Það liðið sem hlýtur fleiri stig úr þessum þremur viðureignum hlýtur titilinn „Íslandsmeistarar liða“. Ef lið verða jöfn að stigum skal hærra pinnafall í fyrrgreindum þremur viðureignum ráða. Sjá nánar í reglugerð um Íslandsmót liða