Fyrsta viðureignin í úrslitum 1. deildar karla á Íslandsmóti liða á milli ÍR-KLS og ÍR-PLS fór fram í Egilshöllinni í gærkvöldi. Eftir jafna og spennuþrungna keppni er staðan þannig að ÍR-KLS er með 11 stig á móti 9 stigum ÍR-PLS . Önnur viðureignin og heimaleikur ÍR-PLS fer fram í Egilshöllinni í kvöld og hefst kl. 19:00.
Liðsmenn ÍR-KLS komu mjög ákveðnir til leiks og unnu ÍR-PLS 5 – 1 í fyrsta leiknum með 751 pinna á móti 727. ÍR-PLS svöruðu fyrir sig í öðrum leiknum og unnu hann 5 – 1 með 814 pinnum á móti 804. Þriðji leikurinn var mjög spennandi og fór 3 – 3, ÍR-KLS spilaði 806 og ÍR-PLS 771. Samtals var ÍR-KLS með 2.361 pinna, en ÍR-PSL með 2.312. Hafþór Harðarson ÍR-PLS spilaði best allra með 694 seríu og Arnar Sæbergsson ÍR-KLS spilaði 671. Stöðuna í úrslitakeppninni er hægt að sjá hér
Úrslitakeppni 1. deildar karla og kvenna fer þannig fram að fjögur efstu liðin eftir deildarkeppnina komast í úrslitakeppni þar sem spilað er samkvæmt útsláttarfyrirkomulagi, það er að liðið sem er í efsta sæti deildarinnar keppir við liðið í 4. sæti og liðið í 2. sæti keppir við liðið í 3. sæti. Leiknar skulu tvær viðureignir, heima og heiman, og fær hærra liðið heimaleik fyrst. Ráðast úrslit af stigum liðanna eftir þessar 2 viðureignir, ef lið eru jöfn skal pinnafall ráða. Sigurvegarar úr þessum tveim viðureignum skulu leika þrjár viðureignir heima og heiman. Liðið sem varð hærra í deildarkeppninni skal eiga heimaleik fyrst og svo til skiptis. Það liðið sem hlýtur fleiri stig úr þessum þremur viðureignum hlýtur titilinn „Íslandsmeistarar liða“. Ef lið verða jöfn að stigum skal hærra pinnafall í fyrrgreindum þremur viðureignum ráða. Sjá nánar í reglugerð um Íslandsmót liða