Það eru miklar sviptingar á toppi 1. deildar karla. Að loknum fjórum umferðum í 1. deild karla hafa ÍR-KLS sem sigruðu KR-C 17 – 3 á heimavelli í Egilshöll í þessarri umferð, tekið efsta sæti deildarinnar með 65 stig. ÍA sem lagði félaga sína í ÍA-W 12 – 8 á Skaganum, er nú í öðru sæti með 60,5 stig. En ÍR-PLS sem eiga leik til góða á móti KFR-Lærlingum halda ennþá þriðja sætinu með 56,5 stig. ÍA-W kemur síðan í fjórða sæti með 55 stig.
Úrslit úr öðrum leikjum umferðarinnar voru þau að KR-A og ÍR-L skildu jöfn 10 – 10 í Egilshöll og KFR-JP-Kast tapaði 8 – 12 á móti KFR-Stormsveitinni einnig í Egilshöll.
Andrés Páll Júlíusson ÍR-KLS spilaði best allra keppenda í þessari umferð og var með hæstan leik 236 og hæstu seríu 632, en Höskuldur Höskuldsson var með 223 leik og 628 seríu.
Hafþór Harðarson ÍR-PLS er ennþá með hæsta meðaltali deildarinnar 226,7 að meðaltali í leik, Einar Már Björnsson ÍR-PLS kemur næstur með 209,8 og Magnús Magnússon ÍR-KLS er með 208,4 að meðaltali.
Í 1. deild karla hafa orðið nokkrar breytingar á liðskipan frá síðasta keppnistímabili. Hafþór Harðarson ÍR-PLS er fluttur aftur til Íslands en hann hefur verið í atvinnumennsku í Svíþjóð undanfarin ár. Atli Kárason skipti úr ÍR-PLS í KR-A. Guðlaugur Valgeirsson og Þórður Örn Reynisson skiptu úr KFR-Stormsveitinni í KFR-Lærlinga. Einnig hafa Ásgrímur Helgi Einarsson, Pétur Haukur Helgason, Vilhjálmur Valgeirsson og Stefán Ingi Óskarsson tekið fram kúlurnar að nýju og keppa Ásgrímur, Pétur og Vilhjálmur með KFR-Stormsveitinni, en Stefán Ingi hefur skipt úr sínu gamla liði KFR-Lærlingum yfir í KR-C.
Sjá nánar