Nú þegar liðakeppnin er hálfnuð á Evrópumóti karla í keilu er íslenska liðið í 21. sæti og spilar því í holli 1 sem hefur keppni kl. 8:00 í fyrramálið að staðartíma (kl. 6:00 að íslenskum tíma). Hafþór Harðarson er nú í 25. sæti í einstaklingskeppninni, en vantar einungis 2 pinna upp á að vera inni í hópi 24. efstu. Ljóst er að keppnin um sæti í úrslitum einstaklingskeppninnar verður spennandi alveg þar til liðakeppninni lýkur á morgun. Við sendum baráttukveðjur til strákanna og Hafþórs og óskum þeim góðs gengis á morgun.
Á morgun verður liðunum raðað í holl eftir stöðu þeirra í keppninni þannig að liðin í 18. efstu sætunum hefja keppni kl. 13:30 að staðartíma (kl. 11:30 að íslenskum tíma), en hin liðin hefja keppni kl. 8:00 að staðartíma (kl. 6:00 að íslenskum tíma).
Finnland er nú efst í liðakeppninni með 3.297 pinna, Noregur í öðru sæti með 3.181 pinna, Svíþjóð í þriðja sæti með 3.147 pinna og Þýskaland í fjórða sæti með 3.125 pinna. Næst á eftir þeim koma England, Holland, Belgía, Ísrael, Grikkland og Danmörk er í 10. sæti.