Íslandsmeistarar með forgjöf báðir úr KFK

Facebook
Twitter

Það voru þau Anna Kristín Óladóttir og Sigurður Björn Bjarkason, bæði úr KFK, sem stóðu uppi sem Íslandsmeistarar með forgjöf, en undanúrslit og úrslit fóru fram í Keiluhöllinni í kvöld.

Eftir 5 leiki í undanúrslitum, þar sem 6 efstu konurnar léku allar við allar, var Anna Kristín með 10 pinna forskot á þær Ástrósu Pétursdóttur úr ÍR og Sigrúnu Hulds Hrafnsdóttur úr KFR sem voru jafnar í öðru til þriðja sæti.  Það var Ástrós sem lék síðasta leikinn í undanúrslitunum betur og lék því til úrslita gegn Önnu Kristínu.  Anna Kristín sigraði fyrsta leikinn naumlega með 188 gegn 183, en Ástrós átti mjög góðan annan leikinn, sigraði hann með 259 gegn 193.  Í þriðja leiknum náði Anna Kristín aftur yfirhöndinni og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með því að sigra hann, 231 gegn 170.  Ástrós endaði því í öðru sæti, og Sigrún Huld í því þriðja.

Það var einnig mjótt á mununum í karlaflokknum í undanúrslitunum. Aðeins munaði 6 pinnum á fyrsta og öðru sæti, en efstur var Sigurður Björn Bjarkason úr KFK með 1.577, annar Andrés Páll Júlíusson úr KR með 1.571 og í þriðja sæti Einar Már Björnsson úr KR, 15 pinnum á eftir, með 1.556.  Í úrslitum mættust því þeir Sigurður og Andrés, en Sigurður tryggði sér sigurinn með því að sigra Andrés 228-217 og 194-159.

Þetta er í fyrsta sinn sem Keilufélagið Keila, KFK, eignast Íslandsmeistara í einstaklingsflokki, en aðeins eru rétt rúm fjögur ár síðan félagið var stofnað.

Nýjustu fréttirnar