Undanúrslit Bikarkeppni KLÍ fóru fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Keilusalnum á Akranesi fimmtudaginn 15. mars.
KFR-Valkyrjur og ÍR-TT sigruðu í kvennaflokki og KFR ÍR-KLS og ÍR-PLS í karlaflokki. Þessi lið mætast því í úrslitum Bikarkeppni KLÍ 2007.
KFR-Valkyrjur sóttu KFA-ÍA heim á Skagann og sigruðu þar örugglega 3 – 0. Í Keiluhöllinni fóru fram þrír leikir og fóru þeir allir í fjóra leiki og einn í framlengingu.
Á brautum 1 og 2 áttust við ÍR-KLS og KR-A og höfðu flestir búist við sigri KR-A miðað við spilamennskuna undanfarið. Viðureignin var hins vegar æsispennandi allan tímann og lauk með sigri ÍR-KLS í bráðbana. ÍR-KLS vann fyrstu tvo leikina báða með 9 pinnum, 790 – 779 og 811 – 802. KR-A vann síðan þriðja leikinn 756 – 737 og fjórða leikinn með 7 pinnum 718 – 711. Samtals var ÍR-KLS með 3049 og KR-A með 3055. Í framlengingunni vann ÍR-KLS síðan 143 – 129 og munaði þar mestu um að Árni Geir fékk 59 pinna af 60 mögulegum. Arnar Sæbergsson ÍR-KLS spilaði best allra á settinu með 239 leik og 901 seríu, en hjá KR-A spilaði Andrés Páll 234 og Björn G. Sigurðsson var með hæstu seríu 800.
Í leik ÍR-PLS og ÍR-A leit allt út fyrir auðveldan sigur ÍR-PLS sem fóru á kostum í fyrstu tveimur leikjunum 870 – 775 og 904 – 723, en þá var eins og liðsmenn ÍR-A vöknuðu til lífsins, unnu þriðja leikinn 749 – 734, en urðu síðan að láta í minni pokann í fjórða leiknum sem ÍR-PLS vann 738 – 694. Sería ÍR-PLS var 3246 en ÍR-A 2941. Róbert Dan Sigursson ÍR-PLS spilaði best allra á settinu með 279 leik og 898 seríu. Hjá ÍR-A var Kristján Þórðarson með hæsta leik liðsins 221, en Matthías Helgi Júlíusson með hæstu seríu 743.
Leikur ÍR-TT og KFR-Afturganganna var spennandi frá upphafi til enda. KFR-Afturgöngurnar byrjuðu með látum og voru með forystu allan fyrsta leikinn. ÍR-TT áttu þó möguleika á að vinna í 10 ramma, en svo fór að KFR-Afturgöngurnar unnu leikinn með 1 pinna 697 – 696. ÍR-TT vann síðan næstu þrjá leiki 753 – 654, 677 – 664 og 732 – 705 og viðureignina 3 – 1. Sería ÍR-TT var 2858 en KFR-Afturgöngurnar voru með 2720. Ragna Matthíasdóttir KFR-Afturgöngunum spilaði best allra á settinu með 213 leik og 740 seríu, en hjá ÍR-TT var Linda Hrönn Magnúsdóttir með hæsta leik 213 og Sigríður Klemensdóttir með hæstu seríu 730.