Íslandsmeistarar einstaklinga 2007

Facebook
Twitter

Sigfríður Sigurðardóttir KFR og Magnús Magnússon KR eru Íslandsmeistarar einstaklinga í keilu árið 2007.

Er þetta fjórða árið í röð sem Sigfríður vinnur þennan titil, en Magnús hefur fjórum sinnum unnið þennan titil, árin 2001 og 2003 – 2005. Sigfríður var með örugga forystu í keppninni frá upphafi, en Magnús náði efsta sætinu í síðasta leik í undanúrslitnum á móti Hafþóri Harðarsyni KFR, sem hann mætti síðan í úrslitaleiknum.

Karen Rut Sigurðardóttir úr ÍR spilaði best og fékk flest stig í undanúrslitunum í kvennaflokki þegar hún spilaði 1.044 og fékk 100 aukastig, og vann sig með því upp úr 5. sæti í 2. sætið, og endaði því 11 pinnum hærri en Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR sem varð í 3. sæti. Í úrslitunum má segja að það hafi verið reynsla Sigfríðar sem tryggði henni titilinn, en hún vann Karenu með 202 og 279 leikjum eða samtals 481 á móti 152 og 216 leikjum Karenar eða samtals 368. Meðaltal Sigfríðar í mótinu var 208,7, meðaltal Karenar Rutar 191,78 og meðaltal Mögnu Ýrar 192,39.

 

Magnús sigraði Hafþór í úrslitunum með 215 og 244 eða samtals 459 á móti 170 og 187 leikjum hjá Hafþór eða samtals 357. Í 3. sæti varð Steinþór Geirdal ÍR sem var 104 pinnum frá því að komast inn í úrslitin. Meðaltal Magnúsar í mótinu var 232,72, meðaltal Hafþórs 233,12 og meðaltal Steinþórs 228,96. 

Andrés Páll Júlíusson KR spilaði hins vegar best allra keppenda í karlaflokki í undanúrslitunum og setti Íslandsmet í 7 leikjum þegar hann spilaði 1.697 og vann sig með þeirri spilamennsku upp úr 8. sæti í það 4. Frábær spilamennska hjá Andrési, en leikir hans voru 231, 237, 236, 267, 227, 224 og 278. Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR bætti eigið Íslandsmet í 1. flokki stúlkna 17 – 18 ára þegar hún spilaði 682 í 3. leikjum, eða 257, 192 og 233. Sigfríður, Árni Geir og Magnús spiluðu hins vegar hæstu leiki dagsins, Sigfríður og Árni Geir 279 og Magnús 280 og 290.

  • Leikir í karlaflokki
  • Úrslit í karlaflokki

    Óskum við vinningshöfum og methöfum til hamingju með góðan árangur og þökkum Atlantsolíu, sem gaf öll verðlaun í mótinu, fyrir stuðninginn.


     

  • Nýjustu fréttirnar