Sigfríður Sigurðardóttir KFR og Magnús Magnússon KR eru Íslandsmeistarar einstaklinga í keilu árið 2007.
Er þetta fjórða árið í röð sem Sigfríður vinnur þennan titil, en Magnús hefur fjórum sinnum unnið þennan titil, árin 2001 og 2003 – 2005. Sigfríður var með örugga forystu í keppninni frá upphafi, en Magnús náði efsta sætinu í síðasta leik í undanúrslitnum á móti Hafþóri Harðarsyni KFR, sem hann mætti síðan í úrslitaleiknum.
Karen Rut Sigurðardóttir úr ÍR spilaði best og fékk flest stig í undanúrslitunum í kvennaflokki þegar hún spilaði 1.044 og fékk 100 aukastig, og vann sig með því upp úr 5. sæti í 2. sætið, og endaði því 11 pinnum hærri en Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR sem varð í 3. sæti. Í úrslitunum má segja að það hafi verið reynsla Sigfríðar sem tryggði henni titilinn, en hún vann Karenu með 202 og 279 leikjum eða samtals 481 á móti 152 og 216 leikjum Karenar eða samtals 368. Meðaltal Sigfríðar í mótinu var 208,7, meðaltal Karenar Rutar 191,78 og meðaltal Mögnu Ýrar 192,39.
Magnús sigraði Hafþór í úrslitunum með 215 og 244 eða samtals 459 á móti 170 og 187 leikjum hjá Hafþór eða samtals 357. Í 3. sæti varð Steinþór Geirdal ÍR sem var 104 pinnum frá því að komast inn í úrslitin. Meðaltal Magnúsar í mótinu var 232,72, meðaltal Hafþórs 233,12 og meðaltal Steinþórs 228,96.
Andrés Páll Júlíusson KR spilaði hins vegar best allra keppenda í karlaflokki í undanúrslitunum og setti Íslandsmet í 7 leikjum þegar hann spilaði 1.697 og vann sig með þeirri spilamennsku upp úr 8. sæti í það 4. Frábær spilamennska hjá Andrési, en leikir hans voru 231, 237, 236, 267, 227, 224 og 278. Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR bætti eigið Íslandsmet í 1. flokki stúlkna 17 – 18 ára þegar hún spilaði 682 í 3. leikjum, eða 257, 192 og 233. Sigfríður, Árni Geir og Magnús spiluðu hins vegar hæstu leiki dagsins, Sigfríður og Árni Geir 279 og Magnús 280 og 290.
Óskum við vinningshöfum og methöfum til hamingju með góðan árangur og þökkum Atlantsolíu, sem gaf öll verðlaun í mótinu, fyrir stuðninginn.