Landsliðsnefnd hefur valið landsliðhóp karla, en næsta verkefni karlaliðsins er þátttaka á Evrópumóti karla sem fram mun fara í Vínarborg í Austurríki dagana 30. júní til 10. júlí næstkomandi.
Hópinn skipa 8 manns, en haft var samband við 12 aðila og voru þar af 4 sem ekki gáfu kost á sér. Hópinn skipa Árni Geir Ómarsson, Róbert Dan Sigurðsson, Stefán Claessen og Steinþór Geirdal Jóhannsson úr ÍR, Andrés Páll Júlíusson, Björn Birgisson og Björn Guðgeir Sigurðsson úr KR og Hafþór Harðarson úr KFR.
Segja má að tveir nýliðar séu í hópnum, þeir Róbert Dan og Stefán, en Stefán var reyndar valinn í hóp fyrir Heimsmeistaramót karla á síðasta ári, en sá hópur var lagður niður fljótlega þar sem hætt var við þátttöku á því móti. Þeir eru báðir fæddir árið 1988 og hafa báðir keppt fyrir Íslands hönd með unglingalandsliðum.
33 þjóðir hafa skráð sig til leiks, sem er nokkur aukning frá síðasta móti sem fram fór í Moskvu, en þá tóku 25 þjóðir þátt. Hver þjóð getur teflt fram allt að 6 leikmönnum. Á mótinu er keppt í tvímennings, þrímennings og 5 manna liðakeppni, og svo keppni 24 hæstu einstaklinganna úr keppnunum þremur.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu mótsins, sem er www.emc2007.eu.
Landsliðsnefnd KLÍ er þannig skipuð: Bragi Már Bragason formaður, Hörður Ingi Jóhannsson, Theódóra Ólafsdóttir og Þórhallur Hálfdánarson.