Það var sannkölluð „háspenna – lífshætta“ í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð þegar 8 liða úrslit Bikarkeppni KLÍ fóru þar fram fimmtudaginn 15. febrúar. Tveir leikir, á milli ÍR-A og KR-B og ÍR-PLS og KFR-Lærlinga fóru í framlengingu og bráðabana og lauk báðum með naumum sigri ÍR-inga. KR-A vann KFR-JP-kast örugglega og voru við það að setja Íslandsmet þegar þeir spiluðu 1.006 í síðasta leiknum, en serían þeirra var 2.677. ÍR-KLS vann KFR-Stormsveitina einnig með nokkrum yfirburðum og svo var einnig um KFR-Afturgöngurnar í leik þeirra á móti ÍR-BK.
Bikarmeistarar fyrra árs KFR-Lærlingar eru því fallnir úr leik og ljóst að krýndir verða nýir meistarar í karlaflokki. Í 4 liða úrslitum karla spila KR-A, ÍR-A, ÍR-KLS og ÍR-PLS. Í 4 liða úrslitum kvenna spila KFR-Afturgöngurnar, KFR-Valkyrjur, KFA-ÍA og ÍR-TT. Dregið verður í 4ra liða úrslit Bikarkeppni KLÍ fimmtudaginn 22. febrúar á undan keppni í Félagakeppni KLÍ. Undanúrslitin fara síðan fram fimmtudaginn 15. mars n.k.
Leikirnir í 8 liða úrslitum fóru þannig:
KFR-Afturgöngurnar – ÍR-BK 3 – 0
KR-A – KFR-JP-kast 3 – 0
ÍR-A – KR-B 2 – 2, ÍR-A vann í bráðabana
ÍR-KLS – KFR-Stormsveitin 3 – 0
ÍR-PLS – KFR-Lærlingar 2 – 2, ÍR-PLS vann í bráðabana
Á brautum 1 – 2 mættust KFR-JP-kast og KR-A og þrátt fyrir góða spilamennsku JP-kast, sem að þessu sinni voru án síns sterkasta manns, voru þeir lítil fyrirstaða fyrir KR-ingana sem eru í hörku formi þessa dagana. Viðureignin fór því 3 – 0 fyrir KR-A sem spiluðu 773, 898 og 1006 eða samtals 2.677 og voru þeir aðeins 18 pinnum frá Íslandsmeti í einum leik. Leikir KFR-JP-kast voru 624, 779 og 889 eða samtals 2.292. Bestu spilarar á brautarparinu voru Björn G. Sigurðsson 715, Magnús Magnússon 663, Andrés Páll Júlíusson 656, Björn Birgisson 643, Valgeir Þórisson 608 og Ólafur Ólafsson 606.
Á brautum 3 – 4 voru miklar sveiflur í spilamennskunni. KR-B byrjaði með látum og vann fyrstu tvo leikina nokkuð örugglega með 817 og 814 gegn 724 og 657 hjá ÍR-A og leit út fyrir að það væri formsatriði fyrir KR-inga að klára leikinn. Í þriðja og fjórða leiknum komu ÍR-ingar síðan til baka og sigruðu með 744 og 723 gegn 655 og 716. Í bráðbananum var spennan mikil og réðust úrslitin hjá síðustu mönnum og fór þannig að ÍR-A vann með 153 pinnum gegn 142 hjá KR-B. Bestu spilarar á brautarparinu voru Davíð Löve 764, Bragi Már Bragason 763, Kristján Hafliðason 725 og Stefán Þ. Jónsson 725 (í 4 leikjum).
Viðureign ÍR-KLS og KFR-Stormsveitarinnar fór fram á brautum 5 – 6. Sigurinn var nokkuð öruggur hjá ÍR-KLS sem spilaði 802, 749 og 830 eða samtals 2.381 gegn 707, 711 og 795 eða samtals 2.213 hjá KFR-Stormsveitinni. Bestu spilarar á brautarparinu voru Árni Geir Ómarsson 626, Arnar Sæbergsson 618, Stefán Claessen 616 og Andri Már Ólafssn 601.
Stórviðureign umferðarinnar fór síðan fram á brautum 7 – 8 í leik ÍR-PLS og bikarmeistaranna KFR-Lærlinga sem mættu til leiks án Bjarna Páls Jakobssonar. Hjá ÍR-PLS var Steinþór G. Jóhannsson hins vegar mættur til leiks eftir nokkurra vikna hlé og byrjaði með látum, virtist aðeins vanta upp á úthaldið í fjóra leiki. ÍR-PLS vann fyrsta leikinn nokkuð örugglega með 862 gegn 826 hjá KFR-Lærlingum. Annar leikurinn var æsispennandi og lauk með sigri KFR-Lærlinga með 821 gegn 812. Þá virtist verða hálfgert spennufall hjá KFR-Lærlingum, því þriðja leiknum lauk með öruggum sigri ÍR-PLS með 957 gegn 695 þar sem Halldór Ragnar Halldórsson spilaði 290 leik. Fjórði leikurinn var síðan í járnum allan tímann fram í 10 ramma hjá síðasta manni og lauk með sigri KFR-Lærlinga með 4 pinnum 763 gegn 759, þar sem Freyr náði að tengja inn í 10 ramma. Í bráðbananum byrjuðu Lærlingarnir vel og voru með þrjár fellur í 9 ramma á móti 4 feykjum hjá ÍR-PLS og leit út fyrir að þeir væru komnir með aðra höndina á bikarinn, en þar sem enginn þeirra náði að nýta sér forskotið og tengja inn í 10 ramma lauk leiknum með sigri ÍR-PLS 156 gegn 147. Bestu spilararnir á brautarparinu voru Halldór Ragnar Halldórsson 702 + 222, Steinþór G. Jóhannsson 688 + 172, Róbert Dan Sigurðsson 634 + 180, Hafliði Örn Ólafsson 607 + 185. Hæsti leikur Halldórs Ragnars var eins og áður segir 290, en Steinþór spilaði 263 og Hafliði Örn setti persónulegt met með 258 leik.
Á brautum 9 og 10 mættust kvennaliðin KFR-Afturgöngurnar og ÍR-BK sem að þessu sinni mættu til leiks án Ástrósar Pétursdóttur. Þrátt fyrir ágæta spilamennsku ÍR-BK áttu KFR-Afturgöngurnar ekki í erfiðleikum með að landa sigrinum að þessu sinni. Leikir þeirra voru 719, 695 og 709 eða samtals 2.123 gegn 628, 627 og 654 eða samtals 1.909 hjá ÍR-BK. Bestu spilarnir á brautarparinu voru Karen Rut Sigurðardóttir 599, Ragna Matthíasdóttir 570, Helga Sigurðardóttir 551 Jóna Gunnarsdóttir 505 og Halldóra Í. Ingvarsdóttir 502.