Íslandsmót liða 1. deild kvenna

Facebook
Twitter

Liðsmenn ÍR-TT fóru á kostum á mánudaginn í 13. umferð 1. deildar kvenna, þegar þær unnu KFR-Skutlurnar 20 – 0 og spiluðu hæstu seríu 2.347 og hæsta leik 858 í kvennadeildinni í vetur. Leikir liðsins voru 760, 858 og 729. Þetta var jafnframt hæsti leikur og sería liðsins frá upphafi. Guðný Gunnarsdóttir og Linda Hrönn Magnúsdóttir áttu sannkallaða stórleiki þegar þær spiluðu hæstu leiki vetrarins, Guðný 268 í fyrsta leik og Linda Hrönn 267 í öðrum leik og var liðið aðeins 5 pinnum frá gildandi Íslandsmeti í tveimur leikjum.

Seríur liðsmanna voru Guðný Gunnarsdóttir 614, Linda Hrönn Magnúsdóttir 607, Sigurlaug Jakobsdóttir 551 og Sigríður Klemensdóttir 575.

KFR-Valkyrjur áttu einnig stórleik á móti KFR-Afturgöngunum og sigruðu þær 16,5 – 3,5 í toppbaráttunni með 2.300 á móti 2.029. Sigfríður Sigurðardóttir spilaði 658 sem er hæsta sería einstaklings í kvennadeildinni í vetur og voru leikir hennar 214, 203 og 241. Dagný Edda Þórisdóttir spilaði 575, Theódóra Ólafsdóttir 541 og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir 526. Hjá KFR-Afturgöngunum spilaði Jóna Gunnarsdóttir best eða 537.

Þriðja leik umferðarinnar á milli ÍR-BK og KFA-ÍA lauk með 12 – 8 sigri fyrir ÍR-BK sem spiluðu 1.809 á móti 1.694. Þar spilaði best Karen Rut Sigurðardóttir ÍR-BK 518, en hún skipti um áramótin úr ÍR-TT yfir í ÍR-BK og hefur styrkt liðið mikið. Lið ÍR-KK sat hjá í þessari umferð.

Með þessum góða sigri náði ÍR-TT að komast upp í 2. sæti deildarinnar með 172 stig, 6,5 stigum á eftir KFR-Valkyrjum sem eru í efsta sætinu með 178,5. KFR-Afturgöngurnar koma síðan í 3. sæti með 158,5 stig, KFR-Skutlurnar í 4. sæti með 102 stig og lið ÍR-BK vinnur á og er komið í 5. sæti með 72 stig. Í 6. sæti er KFA-ÍA með 48, 5 stig og í 7. sæti ÍR-KK einnig með 48,5 stig.

Í næstu umferð, 14. umferð, mætast í Keilusalnum á Akranesi á sunnudag 18. febrúar kl. 13:00 KFA-ÍA og ÍR-KK  og í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð mætast á mánudag 19. febrúar kl. 19:00 ÍR-TT og KFR-Afturgöngurnar, KFR-Valkyrjur og KFR-Skutlurnar, en lið ÍR-BK situr hjá.

Nýjustu fréttirnar