Steinþór og Róbert Dan Íslandsmeistarar

Facebook
Twitter

Það voru þeir Steinþór Geirdal Jóhannsson og Róbert Dan Sigurðsson úr ÍR sem stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í tvímenningi í gærkvöldi, eftir æsispennandi úrslit.

Björn Birgisson og Hafþór Harðarson úr KFR, sem leiddu að lokinni forkeppni og milliriðli, héldu forystunni út undanúrslitin, þar sem sex efstu tvímenningarnir léku allir gegn öllum.  Þeir léku best allra í undanúrslitum, eða á 203,9 meðaltali.  Steinþór og Róbert Dan léku næst best, á 194,8 meðaltali, og voru að auki með flesta bónuspinna, 170 talsins, og komust þannig upp í annað sæti.  Í þriðja sæti enduðu Magnús Magnússon og Björn G. Sigurðsson, en þeir unnu sig upp úr sjötta sætinu.

Í úrslitum léku því Björn og Hafþór gegn þeim Steinþóri og Róberti, en úrslitakeppnin var leikin eftir lítillega breyttu fyrirkomulagi frá síðasta ári. Tvímenningnum sem var í fyrsta sæti að loknum undanúrslitum dugði að ná í tvö stig á meðan, á meðan sá í þriðja sæti þurfti þrjú stig, en eitt stig var gefið fyrir sigur í viðureign og hálft fyrir jafntefli, en áður féllu jafnteflis viðureignir niður.

Steinþór og Róbert Dan byrjuðu af miklum krafti, unnu fyrsta leikinn með 479 pinnum gegn 409, og þann annan með 423 gegn 418.  Björn og Hafþór unnu síðan næsta leik naumlega með 383 gegn 377 pinnum Steinþórs og Róberts, og hefði því dugað sigur í næsta leik.  Úrslitin í þeim eik réðust í síðasta skoti, þegar Steinþór tók 9 pinna, og unnu þeir leikinn með 377 pinnum 376.

Steinþór og Róbert Dan úr ÍR eru því sem fyrr segir Íslandsmeistarar, og óskum við þeim til hamingju með það.

Myndir frá kvöldinu eru væntanlegar.

Nýjustu fréttirnar