Utandeild í keilu 2005 – 2006

Facebook
Twitter

Hefur þú/þið áhuga á að taka þátt í skemmtilegri keppni í vetur?
Keilusamband Íslands mun í vetur standa fyrir liðakeppni í keilu „utan deilda“ eins og undanfarin fjögur ár og fer keppnin fram í keilusalnum Keilu í Mjódd. Er þetta tilvalið tækifæri fyrir vinnufélaga, vinahópa, saumaklúbba, spilaklúbba, veiðifélaga og aðra að vera með í skemmtilegri keppni einu sinni í mánuði yfir veturinn.

Eftirfarandi eru helstu upplýsingar um keppnisfyrirkomulag og annað er máli skiptir:
Keppnisfyrirkomulag: Keppnistímabilið er frá október 2005 og fram í apríl 2006 og er keppt einu sinni í mánuði á fimmtudögum og hefst keppni kl. 18:30. Keppt verður í 3ja manna liðum og spilaðir 3 leikir og tekur keppnin um 2 klst. í hverri umferð. Að lokinni riðlakeppni komast tvö efstu liðin úr hverjum riðli áfram í úrslitakeppni.

Þátttaka: Reglur eru einfaldar og rétt til þátttöku hafa allir sem áhuga hafa og geta myndað 3 manna lið og þurfa liðsmenn ekki að vera skráðir í keilufélag. Engin takmörk eru á fjölda leikmanna sem er skráðir eru í deildarkeppni á vegum KLÍ. Hægt er að skipta um alla leikmenn liðs á milli leikja.

Skor og stigagjöf: Veitt eru 2 stig fyrir sigur liðs í hverjum leik, 2 stig fyrir hærra heildarskor liðs í umferð og 1 stig fyrir jafnt skor í leik eða umferð, þannig að í hverri viðureign getur lið mest fengið 8 stig. Skráð er skor leikmanna og liðs í hverjum leik og reiknað út meðaltal leikmanna og liðs eftir hverja umferð.

Forgjöf: Leikið er með forgjöf sem leggst við skor keppanda í hverjum leik. Þetta er gert til að jafna mun á milli keppniskeilara og áhugamanna, karla og kvenna.

Þátttökugjald og brautarleiga: Þátttökugjald í utandeildinni er kr. 10.000 fyrir hvert lið ef greitt er fyrir 1. nóvember. Brautarleiga til keilusalarins er kr. 3.300 fyrir liðið hver umferð. Sjá nánari upplýsingar um utandeildina og reglur á heimasíðu Keilusambands Íslands www.kli.is

Skráningarfrestur í keppnina er til og með 22. september 2005. Þann 22. september verður haldin kynning á deildinni í Keilu í Mjódd. Húsið verður opið frá kl. 18:30 til 21:00. Þar verður boðið upp á kennslu í keilu ásamt því að tekið verður á móti skráningum í deildina. Þegar lið er skráð þarf að taka fram heiti liðs, nafn, netfang og símanúmer fyrirliða sem er tengiliður við KLÍ og einnig þarf að taka fram á hvern á að stíla reikning vegna þátttökugjalds ef greiðandi er annar en fyrirliði. Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Ásgrími Helga Einarssyni starfsmanni KLÍ [email protected] sími 856 0558.  Sjá auglýsingu

ÁHE

Nýjustu fréttirnar