Haustmótið 2005
Þátttaka er svo sannarlega að aukast í Haustmótinu enda styttist í að keppnistímabilið hefjist. Nú hafa alls 37 keppendur tekið þátt í mótinu þegar það er hálfnað. Næstu umferðir í Haustmótinu eru miðvikudaginn 7. september og sunnudaginn 11. september kl. 20:00. Mótið er tilvalið fyrir byrjendur þar sem keppt er í 5 flokkum eftir meðaltali og fáir keppendur eru í neðstu flokkunum. Sjá nánari upplýsingar um mótið og stöðuna á www.keila.is og í Keilu í Mjódd.
Evrópubikarmót landsmeistara 2005
Þriðjudaginn 6. september eru æfingar og setningarathöfn Evrópubikarmóts landsmeistara 2005 sem fer fram í Böblingen í Þýskalandi dagana 5. – 11. september 2005. Á miðvikudag hefst síðan keppni með 6 fyrstu leikjunum í karlaflokki og 12 leikjum í kvennaflokki. Fulltrúar okkar á mótinu verða Íslandsmeistarar einstaklinga 2005, þau Sigfríður Sigurðardóttir úr KFR og Magnús Magnússon úr KR. Þetta er annað árið í röð sem Sigfríður tekur þátt í þessu mót, en þriðja árið hjá Magnúsi. Keppnisfyrirkomulag mótsins er þannig að keppt er í einstaklingskeppni þar sem spilaðir eru 6 leikir í senn í fjórum leikjablokkum, alls 24 leikir, og er til skiptis keppt í langri og stuttri olíu. Að loknum þessum 24 leikjum komast 8 efstu keppendurnir í karla- og kvennaflokki áfram í úrslit. Alls eru 40 karlar og 37 konur skráð til keppni og eru keppendur því 77 talsins. Heimasíða mótsins er http://eci2005.dbu-bowling.de
Meistarakeppni KLÍ 2005
Meistarakeppni KLÍ fer fram í Keilu í Mjódd fimmtudaginn 15. september og hefst upphitun kl. 20:00. Að þessu sinni keppa til úrslita í kvennaflokki Íslands- og bikarmeistararnir KFR-Valkyrjur og lið KFR-Flakkara sem var í öðru sæti Bikarkeppninnar. Í karlaflokki keppa Íslands- og bikarmeistararnir ÍR-KLS og KFR-Lærlingar sem voru í öðru sæti í Bikarkeppninni. Búast má við að þetta verði hörkuviðeignir og hvetjum við alla keilara til að koma og fylgjast með keppninni og upphafi tímabilsins.
Íslandsmót liða 2005 – 2006
Keppni í Íslandsmóti liða hefst mánudaginn 19. september n.k. með keppni í 1. deild kvenna, þriðjudaginn 20. september í 1. deild karla og miðvikudaginn 21. september í 2. deild karla. Keppt verður í Keilu í Mjódd kl. 20:00 alla daga, kl. 18:30 á miðvikudögum í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og kl. 13:00 og kl. 16:00 á sunnudögum í Keilusalnum á Akranesi. Verið er að leggja lokahönd á mótaskrá keppnistímabilsins og mun hún verða send félögunum og birt á heimasíðunni www.kli.is innan skamms.
Unglingastarfið
Æfingar fyrir börn og unglinga hefjast í vikunni. Keilufélag Reykjavíkur verður með æfingar í Keilu í Mjódd á þriðjudögum og fimmtudögum kl. frá kl. 16:30 til 18:00. Þjálfarar verða Dagný Edda Þórisdóttir og Hafþór Harðarson og yfirþjálfari er Theódóra Ólafsdóttir. Hægt er að skrá sig hjá KFR í síma 661-9585 eða [email protected].
Æfingar hjá keiludeild ÍR verða í Keilu í Mjódd á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 16:00 til 17:00. Þjálfari er Jón Helgi Bragason og honum til aðstoðar verður Arnar Ólafsson. Skráning í Keilu í Mjódd í síma 587-1222.
Ef þú vilt fá fréttbréf KLÍ til þín í tölvupósti um leið og það er gefið út þá sendu okkur tölvupóst á [email protected], eða skráðu þig hér