Nú er keppni í þrímenningi lokið og eingöngu liðakeppnin eftir. Björn (713 alls 1204), Kristján (574/1184) og Árni Geir (649/1304) enduðu í 21. sæti af 52. með 3693 stig eða 205,17 að meðaltali í þessum 6 leikjum, en Magnús (619/1228), Arnar (611/1155) og Steinþór (611/1167) voru í 32. sæti með 3550 stig eða 197,22 að meðaltali. Björn spilaði mjög vel í dag, eftir slakan dag í gær, og einnig Árni Geir sem hefur náð sér vel á strik þessa tvo daga í þrímenningnum.
Keppnin var jöfn í þrímenningnum og skildu aðeins nokkur stig að efstu sætin þegar upp var staðið. Fór að lokum þannig að Finnar báru sigur úr býtum, en liðið sem var skipað þeim Kimmo Lehtonen, Petteri Salonen og Lasse Lintila spilaði samtals 4042 eða 224,56 að meðaltali í leik. Í öðru sæti voru Norðmennirnir Per Kristian Eide, Svein Roger Olsen og Petter Hansen með 4027 eða 223,72 að meðaltali og í þriðja sæti Þjóðverjarnir Oliver Morig, Achim Grabowski og Jens Nickel með 4009 stig eða 222,72 að meðaltali.
Staðan er nú þannig í heildarkeppninni að Steinþór er enn efstur Íslendinganna í 58. sæti með 207,89 að meðaltali í leik. Þjóðverjinn Oliver Morig nú efstur með 229,83 að meðaltali í leik, annar er Finninn Petteri Salonen með 229,22 og eftir góða spilamennsku í dag er Finninn Lasse Lintilla kominn í þriðja sætið með 228,56 að meðaltali.
Á morgun föstudag hefst keppni í liðakeppni 5 manna liða með fyrstu þremur leikjunum en keppninni lýkur á laugardaginn.
Fylgist með á keilusíðunum og á heimasíðu mótsins http://bowlingsport.ru/tur/world/emc2005/english.shtml